Ertekkalltofbissíkrissífyrirdjúpþenkjandidylan -einsogmig?

by Hildur

Blaðamaður á Fréttablaðinu og ágætur kunningi minn bloggar hér. Einu sinni bloggaði hann annarsstaðar og valdi sér slóð með nafninu sínu. Ég kíkti þangað áðan og fann þetta. Sem var fróðlegt.

Skrítið. Ég er alltaf þreytt. Ég er alltaf frekar illa sofin, alltaf útkeyrð á líkama og stundum sál -samt sjaldan þessa dagana- og það er bara einfaldlega ekki nógu gott. Það eru ekki nógu margir klukkutímar í sólarhringnum -nei bíddu, ég þarf að umorða þetta:

ÞAÐ ERU EKKI NÓGU MARGAR KLISJUR Í SÓLARHRINGNUM.

Fyrsta einn og hálfan til tvo tímana eftir að ég svæfi er ég svotil óhæf til verka. Ég hendi kannski í eina þvottavél eða geng frá í eldhúsinu en svo sit ég bara. Tala við vini mína á msn. Glápi út í loftið. Les blogg. (Bloggið er misvel skrifað og mér sýnist í svipinn að það sé bara huglægnisvíma sem rennur óhindruð inn í sýndarveruleikann. Það er engin ögun í þessum skrifum. Bloggið er veita fyrir skjótfengnar skoðanir, það er allt látið vaða enda er allt jafn gilt. -Steinar Bragi enn og aftur).

Núna eru að verða liðnir tveir tímar síðan ég lauk svæfingum. Það þýðir að ég get farið að gera eitthvað. Vín komið í glas, náttföt löngu komin á kropp, leggir krosslagðir á stól: ACTION.
Heimaverkefni númer eitt: Yrkja ljóð og senda rafrænt.
Heimaverkefni númer tvö: Rannsaka sögnina ‘unna’ í Íslendingasögunum, komast að því hvaða atviksorð fylgja henni og hversu oft, hvernig hún skiptist milli kynja, hversu oft hún kemur fram í mannlýsingum og hversu oft í samtölum. Þetta er meira maus en kona skyldi ætla.
Heimaverkefni númer þrjú: Lesa handrit að stuttri skáldsögu, gera athugasemdir og senda þær höfundinum.

Þessi verkefni birtast hér í röð sem hefur enga sérstaka merkingu, mér er lífsins ómögulegt að gera upp á milli þeirra þegar kemur að mikilvægi. Í raun er málið einfalt: Ég VERÐ að gera þetta ALLT. Helst í gær.

En sumsé. Tímarnir tveir eru brátt liðnir, þvottavélin er búin að þvo, ég held til verks. Adios amigos.

Share on Google+Tweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on FacebookShare on LinkedInShare on StumbleUponShare on RedditEmail this to someone

No Comments to “Ertekkalltofbissíkrissífyrirdjúpþenkjandidylan -einsogmig?”

  1. Passaðu þig á Remove Winfixer, það heltekur mann…

Leave a Reply