Af barnaklámi

by Hildur

Allt í fína. Þetta er gamalt mál og flokkast þessi færsla undir tilgangslaust nöldur. En skrú jú. Það verður í öllu falli athyglisvert að sjá hversu margir slæðast hingað næstu vikurnar, mánuðina, árin eftir að hafa slegið upp í leitarvélum þessu orði sem ég hef aldrei skilið. Barnaklám. Þetta er svona eins og rúmglas. Eða fiskadúnn. Eins og þetta samsetta orð hafi einhverja merkingu – eða eigi að hafa einhverja merkingu – sem samt gengur einhvern veginn ekki alveg upp. Allavega.

Ég ætla að segja ykkur söguna sem sögð er með öðrum orðum í hlekknum hér að ofan. Söguna af Kristjáni Arasyni. Kristján Arason var nítján ára gamall drengur sem bjó með foreldrum sínum í Hafnarfirði og átti ofsalega fína tölvu. Þegar tölvan hans bilaði varð drengurinn Kristján ákaflega sorgmæddur og fór með hana á verkstæði.

Ljótu kallarnir á verkstæðinu gerðu ekki bara við tölvu drengsins heldur GRÖMSUÐU í henni! Þvílíkur dónaskapur. Í gramsinu fundu þeir nokkur hundruð gullfallegar myndir af allsberum börnum. Ljótu verkstæðiskallarnir settu upp englabrosin sín og geislabaugana og hringdu á lögregluna. Þeir sögðust bara hafa verið að reyna að laga tölvu drengsins þegar þessar barnamyndir hafi allt í einu stokkið upp á skjáinn. Lögreglan tók það gott og gilt og hélt á brott með tölvuna. Eftir stóðu glaðhlakkalegir verkstæðismenn, neru saman höndum og hlógu digurbarkalegum hlátri. Aumingja litli drengurinn var heima hjá sér, ákaflega dapur af því að tölvan hans var svo lengi í viðgerð. En hann lét huggast að nokkru leyti þegar hann fékk lánaða tölvu hjá vini sínum.

Einn góðan veðurdag bankaði lögreglan upp á hjá litla drengnum og hrifsaði af honum hina tölvuna líka! Þetta eru nú meiri kallarnir hugsaði Kristján ringlaður með sér. Lögreglumennirnir skipuðu Kristjáni litla að mæta fyrir dómara. Þá varð pilturinn heldur en ekki skelkaður, hvað gera eiginlega dómarar? Eru þeir góðir? Eða kannski vondir? Setja þeir kannski unga pilta í fangelsi bara af því að tölvan bilar? Nei, það gat ekki verið. Drengurinn herti upp hugann, hélt heldur upplitsdjarfur til dómarans og sagði honum sögu sína. Allt er gott sem endar vel og klappaði dómarinn drengnum á kollinn, þakkaði honum fyrir að vera heiðarlegur og einlægur í sögu sinni, sagði hann frjálsan ferða sinna um leið og hann hefði hækkað yfirdráttinn sinn fyrir lögmannskostnaðinum; fimmtíu þúsund krónum.

Reyndar fékk aumingja pilturinn aldrei að sjá tölvuna sína framar, svo sagan endar kannski ekkert vel eftir allt saman.

Share on Google+Tweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on FacebookShare on LinkedInShare on StumbleUponShare on RedditEmail this to someone

No Comments to “Af barnaklámi”

  1. Kristján Arason? Í Hafnarfirði? Er það ekki háttvirtur eiginmaður háttvirts menntamálaráðherra?

  2. Djöfull ertu að blogga stúlkukind. Ég er að fíla þig. Já, og ég er á móti barnaklámi.

  3. Nei, þessi er í alvöru nítján ára. Djöfull eruð þið snöggir að kommenta, eruð þið áskrifendur eða hvað?

  4. Mér finnst meira en lítið grunsamlegt að þú skulir alltaf blogga rétt áður en ég fer á síðuna þína.

Leave a Reply