Archive for February 9th, 2007

February 9th, 2007

by Hildur

Ég get, í augnablikinu, ómögulega rifjað upp hvort eða hvenær ég hef linkað á þetta. Hafi ég ekki gert það áður, þá hef ég í öllu falli klárlega gert það núna. Bara til öryggis. Allir verða að lesa þetta. Helst mjög reglulega.

February 9th, 2007

Að gefnu tilefni

by Hildur

hef ég ákveðið að þjófstela miskunnarlaust frá vini mínum.

Á bak við fyrirvarana stendur: Við tökum enn til greina samstarf við Frjálslynda flokkinn. Eins og það sé eitthvað ‘ef’ til staðar lengur -það er ekki eins og flokkurinn sé að fara að gefa út neinar yfirlýsingar: “Jú, það er rétt. Þið komuð upp um okkur. Við ÞOLUM EKKI ÚTLENDINGA!”

En læsu fólki er ljóst að þetta stendur á milli línanna. Það er engu líklegra að þú fáir berkla af því að hitta útlending á Íslandi en að hitta íslending í útlöndum. Smitsjúkdómar smitast á milli fólks, fyrst og síðast, það er minna um að þeir smitist á milli landa (lönd fá ekki sjúkdóma – ekki svona sjúkdóma í öllu falli).

Það að segjast ekki vera rasisti. Það að sárna þegar maður er kallaður rasisti. Það að reiðast þegar maður er kallaður rasisti – ekkert af þessu þýðir að maður sé ekki rasisti. Sá sem leitar logandi ljósi að ástæðum fyrir því að “stemmu stigu við flæðinu” – ég tala nú ekki um þegar því fylgja vafasamar flimtingar eins og að siðmenningin, mannúðin og lýðræðið séu kristin fyrirbæri, að lettar séu hættulegri en svíar og að heiðursmorð séu vandamál á Íslandi – er, án vafa eða vafninga, rasisti.

Takk.

February 9th, 2007

by Hildur

Pistlaskrifin á Panama já, einhver var að spyrja um þau um daginn. Ég geri ráð fyrir því að verða á laugardögum hér eftir en eins og menn hafa tekið eftir er uppsetningin á vefnum vafasöm og um þessar mundir virðist vera ómögulegt að skoða gamla pistla. Nema náttúrulega að þeir finnist með því að giska á slóðir, en það hef ég ekki nennt að reyna, né heldur geri ég ráð fyrir því að finnist fólk er hafi þvílíkan óseðjandi áhuga á skrifum mínum eða annarra Panamapenna. Hér fyrir neðan límist í öllu falli síðasti pistill frá mér, nýr ætti að óbreyttu að birtast á morgun. Best að hella sér í að semja hann snöggvast. Í öðrum fréttum er það helst að mér þykir næsta óbærilegt að horfa á fréttaskýringaþátt Ríkissjónvarpsins sökkva niður á Kompássplanið eins og hefur gerst á nánast hverjum degi undanfarna viku. Nýja Kastljós hóf göngu sína í október eða nóvember 2005 og gerði út á félagsmálatilfinningaklám frá fyrsta degi. Það var orðið eins og hálfgerð félagsmálastofnun fyrir klámfíkla og hefur undirrituð haft á því og þess undurfríða föruneyti megnan viðbjóð frá upphafi vega. Hitt er aftur ljóst að nú hafa þau náð botninum. Umfjöllun um Breiðuvíkurmálið (útúrdúr: hvers vegna fallbeygir þetta enginn? Keyra menn um Miklabraut?) hefur verið að öllu leyti stórfenglega subbuleg – a new low. Til hamingju Ísland.

Allavega, hér er pistillinn, ég man ekki hvort hann hét eitthvað.

‘Hypocracy is the lubricant of human society.’
-sagði einhver.

Þessa dagana er sérdeilis skemmtilegt (/niðurdrepandi) að hlusta á fólk. Fólkið í strætó, fólkið á kaffistofunni, fólkið á netinu, fólkið á næsta borði. Fólkið er reitt. Klámfenginn æsifréttamennskuþáttur í sjónvarpinu hefur beint athygli fólksins að því að á einangruðu fallegu hættulausu litlu eyjunni þess, musteri hins „bezta í heimi“, búi hvítir miðaldra karlmenn sem komi fram sóðalegum kynferðisvilja sínum við fólk sem vegna aldurs eða aðstæðna getur enga björg sér veitt.

(Sennilega er ég þegar farin yfir línuna mína um að fjalla ekki um pólitík. En svona verður þetta samt.)

Þetta eru auðvitað ekki nýjar upplýsingar. Ég heyrði konu sem vinnur að doktorsverkefni segja í útvarpinu í vetur segja að hún væri að safna gögnum sem hingað til hefðu ekki verið til. Heitir það ekki að falsa sönnunargögn? Ég skal ekki segja. Kompás er að gera eitthvað slíkt. Safna saman gögnum sem við höfum lokað augunum fyrir. Og Kompás opnar ekki aðeins augu okkar, heldur býr til einn allsherjar upplýsingadrullupoll og nudda andliti okkar uppúr honum.

Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að við sjáum ekkert athugavert við framkomu Kompás. Þvert á móti. Við erum afskaplega hrifin af framtaki Kompáss. Við rísum upp á afturlappirnar, klöppum, tökum ofan, bugtum okkur og beygjum. Við rífum af okkur spjarirnar í gleðinni og á eyjunni okkar upphefst ein allsherjar tilfinningaorgía þar sem enginn veit hvaða kynfæri, hold eða útlimir tilheyra hverjum. Við nuddum okkur saman, grenjum og öskrum í tryllingnum yfir því hvað Við séum góð og Hinir vondir.

Í raun gerum allt sem okkur dettur í hug sem kemur í veg fyrir að við þurfum að viðurkenna að hin raunverulega gleði sem við erum að upplifa er gleði yfir því að Hinir séu viðbjóðslegir (sem hlýtur að þýða að við séum frekar góð) og að nú fái þeir makleg málagjöld. Hver eru hin maklegu málagjöld? Þeir eru teknir af lífi fyrir framan alþjóð án dóms og laga. Frábært, ekki satt? Hverjum er ekki sama um mannréttindi þegar raunverulegur blóðþorsti grípur um sig. Og Við erum nóta bene nákvæmlega sama fólkið, sama þjóðfélagið, og vildi láta loka DV með lögbanni fyrir afskaplega sambærilega fréttamennsku fyrir ári síðan. Þá kom nefnilega sjálfsmorðið á sama tíma og mannorðsmorðið, svo Við gátum með glöðu geði fróað okkur yfir því hvað Við værum góð og Dagblaðið vont.