Archive for September 24th, 2006

September 24th, 2006

We've come a long way…

by Hildur

Víðsjá var lögð í einelti í síðustu viku og sagði af því tilefni sögu sem hún hafði reyndar sagt mér fyrir eins og átján mánuðum síðan. Þessi saga fjallar um lítinn strák sem á enga vini í götunni sinni. Afsprengið mitt hefur aldrei átt vini í götunni. Hann hefur flutt ótt og títt ásamt móður sinni milli misgáfulegra leiguíbúða, aldrei búið í leikskólahverfinu sínu, einstaka sinnum eignast kunningja en aldrei staldrað nógu lengi við til að mynda nokkur alvöru tengsl.

Nú hafa tímarnir breyst. Í næstu þremur húsum í götunni okkar búa þrjú sex ára gömul börn. Það fyrsta sem Sævar segir þegar við komum heim á daginn er Má ég fara að heimsækja vini mína? Strax eftir hádegi alla laugardaga og sunnudaga hljómar líka Má ég fara að heimsækja vini mína? Og með það er hann rokinn. Það er tómlegt í húsinu okkar. Hann fór út upp úr hádegi í dag og kom heim í kvöldmat um kl. 19.30. Og þetta er gott. Auðvitað er þetta gott. En samt ekki. Nú situr hann við skrifborðið sitt í herberginu sínu, hefur lokið við að ganga frá þvottinum sínum og er að vinna heimavinnuna sína. Værirðu nokkuð til í að þrífa gleraugun mín snöggvast? hljómaði áðan.

Ég ætla ekki að halda því fram að ég skilji mæðurnar sem ég hef kynnst í gegnum tíðina sem sleppa ekki takinu, pynta syni sína af samviskubiti yfir því að þeir eigi líf utan foreldrahúsa. En ég veit hvernig þeim líður. Ég sakna einhvers – en samt er allt betra núna. Er ekki k í íkorni?

September 24th, 2006

Únglíngarnir í Skeifunni

by Hildur

Það fer ákaflega í taugarnar á mér þegar drullað er yfir unglinga. Gerður K. bar saman tvenns konar fréttaflutning af unglingum via lögregluna aftan á Fréttablaðinu um daginn og hafði nokkuð til síns máls. Þar var annars vegar um að ræða stúlkukindurnar orðheppnu sem á dögunum hlutu viðurkenningu Tíuþúsund tregawatta fyrir tungubeitingu og hins vegar piltana sem varð svo brátt að þeir náðu ekki lengra en í næsta hraðbanka til að gera þarfir sínar (man do I feel their pain).

Svo óheppilega vildi til fyrir unglinga sem ekki hafa komið fram undir nafni, að þeir voru staddir í sama hverfi og pissudólgarnir þegar snaróða lögreglu bar að garði. Uppskáru þeir óheppnu töluverða líkamsáverka. Frásagnir fjölmiðla af þessu atviki í Skeifunni voru misjafnar. Sumir fjölmiðlar töluðu máli hinna krambúleruðu unglinga en aðrir töluðu um snaróða pissudólga og ráðþrota lögreglu. Ísland er stútfullt af fullorðnum heimskum úthverfabúum sem pissa í sig í hraðbönkum við tilhugsunina um hina ógurlegu unglinga. Þetta er sama fólkið og skrifar í velvakanda um að heilbrigðu fólki sé ekki vogandi niður í miðbæ um helgar, þar sem ástandið er bókstaflega þannig að rekist maður utan í rangan vegfaranda, verði maður ristur á hol. Þessir heimsku úthverfabúar hafa að sjálfsögðu aldrei komið niður í miðbæ um helgar og vita nákvæmlega ekkert hvað þeir eru að tala um. Það er hins vegar að miklu leyti fréttaflutningi að kenna að fólk skuli standa í þessari meiningu.

Nú. Eins og ég segi. Mér leiðast unglingafordómar. Unglingar geta verið óþolandi með öllu en þeir eru líka oft ákaflega skemmtilega óheflaðir og blátt áfram. Lausir undan oki siðferðisins sem kúgar okkur hin. Samt sem áður get ég ekki orða bundist þegar ég rekst á fyrirbæri eins og þetta hér. Ég veit samt ekki almennilega hvaða orða ég get ekki bundist. Ég held barasta að ég sé kjaftstopp.